Heimsækjum Borgarsögusafn í haustfríinu!
Á Árbæjarsafni er fjölskyldum boðið í léttan leiðangur sem safnfræðslan hefur útbúið fyrir safngesti þar sem leitað er að gripum, herbergjum og húsum til þess að kynnast safninu og sýningunum betur. Landnámshestar og hænur eru á vappi um safnsvæðið og leikfangasýningin „Komdu að leika“ og útileiksvæðið er á sínum stað. Safnið er opið alla daga frá klukkan eitt til fimm.
Landnámssýningin býður fjölskyldum í könnunarleiðangur um Kvosina og er hann í boði allt haustfríið. „Tímaflakk um höfuðborgina“ er skemmtileg ganga sem barnabókahöfundarnir Linda Ólafsdóttir og Margrét Tryggvadóttir leiða um miðborgina. Gangan hefst við Landnámssýninguna í Aðalstræti laugardaginn kl. 14. Þá verður Björk Bjarnadóttir umhverfis- og þjóðfræðingur með spennandi erindi um uppruna hrekkjavökunnar sunnudaginn 24. október kl. 14.
Ljósmyndasafn Reykjavíkur býður fjölskyldum að koma að skoða aðalsýningu safnsins sem nefnist „Hilmir snýr heim“ en á henni má sjá fjölda passamynda af sjötugum körlum annarsvegar og blómum í náttúru Íslands hinsvegar. Hvað eiga eiginlega þessir karlmenn og blómin sameiginlegt? Safnið er opið alla daga á sama tíma og Borgarbókasafn.
Sjóminjasafnið í Reykjavík býður fjölskyldum í leiðangur um grunnsýninguna „Fiskur & fólk“ en hún fjallar um allskonar forvitnileg sjávardýr, skip, sardínudósir og margt fleira sem tengist hafinu og reyndar líka það sem ætti ekki að finnast þar. Hvað skildi það nú vera? Safnið er á Grandanum vestur í bæ og stendur rétt við höfnina þar sem stutt er út á bryggju. Opið alla daga frá klukkan 10-17.
Sigling út í Viðey er góð hugmynd að samveru í haustfríinu. Siglingin tekur bara nokkrar mínútur og er skemmtileg byrjun á hressandi útivistardegi í Viðey. Gestir fá kort af eyjunni í miðasölu Eldingar á Skarfabakka og þar má finna upplýsingar um ótal staði sem gaman er að skoða. Siglt er frá Skarfabakka. Gjald í ferjuna er 1.700 kr. fyrir fullorðna og 850 kr. fyrir 7-15 ára. Börn 6 ára og yngri sigla frítt. Menningarkortshafar fá 10% afslátt í ferjuna. Hægt er að kaupa miða fyrirfram vef Eldingar.
Nánari upplýsingar um viðburðina má finna á vefnum www.borgarsogusafn.is og á Facebook síðum safnanna.