Ný sýning og götuhátíð í Aðalstræti
Hin nýja sýning teygir sig neðanjarðar frá Landnámssýningunni í Aðalstræti 16 yfir í elsta hús Kvosarinnar, sem er Aðalstræti 10. Sýningin er framhald af Landnámssýningunni og rekur sögu byggðar í Reykjavík allt frá landnáminu til samtímans. Áhersla er lögð á að draga fram þætti úr sögu Reykjavíkur, varpa ljósi á daglegt líf íbúanna og tíðarandann í aldanna rás. Efnistök og nálgun miða að því að ná sem best til allra notenda Borgarsögusafns Reykjavíkur. Sýningunni er ætlað að vekja áhuga og spurningar - og koma á óvart, með fjölbreyttri miðlun og upplifun.
Með þessari nýju sýningu verður mikilvægi Aðalstrætis sem sögumiðja Reykjavíkur undirstrikað enn frekar. Borgarsögusafn Reykjavíkur mun verða áberandi í hjarta gamla miðbæjarins og nærumhverfi. Allt er þetta mikil lyftistöng fyrir elstu götu Reykjavíkur og stór áfangi í menningarlífi borgarinnar.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur mun setja hátíðina og opna sýninguna kl. 13.
Meðal atriða á götuhátíðinni er skemmtilegt götuleikhús kl. 13:10 og aftur 14:30. Víkingar frá Rimmugýgum sýna bardagalistir og handverk og konur frá Heimilisiðnarfélaginu spássera um svæðið í fallegum íslenskum búningum. Félagar úr Fornbílaklúbbi Íslands mæta með drossíur sínar og dansarar sýna Lindyhopp. Það verður líka tækifæri til að slaka á í sumarstólum á Ingólfstorgi.
Verið öll velkomin á opnun Borgarsögusafns Reykjavíkur í Aðalstræti og fjörmikla hátíð sem glæðir götuna lífi. Aðgangur er ókeypis.