september 14, 2021

Reykjavík bókmenntaborg UNESCO tíu ára

Alþjóðlegir gestir og útgáfa afmælisrits

Nú í haust fagnar Reykjavík tíu ára afmæli sem Bókmenntaborg UNESCO en borgin hlaut þennan varanlega titil í ágúst 2011.

Af þessu tilefni komu fulltrúar tuttugu annarra Bókmenntaborga til ársfundar samstarfsnetsins í Reykjavík í september og afmælisrit Bókmenntaborgarinnar kom út hjá bókaútgáfunni Benedikt.

Það hefur að geyma nýjar greinar eftir fjórtán reykvíska höfunda þar sem þeir hugleiða skáldskapinn og samband sitt við hann. Útgáfunni var fagnað á Bókmenntahátíð í Reykjavík.

Alþjóðlegt samstarfsnet

Haustið 2011 útnefndi Mennta- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, Reykjavík sem Bókmenntaborg UNESCO. Reykjavík var fimmta borgin í heiminum til að hljóta þennan titil og sú fyrsta utan ensks málsvæðis en Bókmenntaborgirnar eru nú orðnar 39 og hefur fjölbreytni tungumála og heimssvæða aukist jafnt og þétt. Í tilefni afmælisins var ársfundur samstarsnetsins haldinn í Reykjavík dagana 6. – 10. september og komu gestir frá um tuttugu öðrum Bókmenntaborgum til Reykjavíkur. Auk þess tóku fulltrúar sem ekki áttu heimangengt vegna heimsfaraldursins þátt í ráðstefnunni með rafrænum hætti. Þetta er í fyrsta sinn sem slík ráðstefna er haldin í samstarfsnetinu og tókst þessi samsláttur fjar- og staðfunda með miklum ágætum. Erlendur gestirnir kynntust bókmenntalífi borgarinnar, tóku þátt í Bókmenntahátíð, ræddu við skáld, þýðendur og útgefendur og lagt var á ráðin um frekara samstarf milli landa.

Fjölbreytt starfsemi

Á þessum tíu árum hefur Bókmenntaborgin Reykjavík sinnt fjölbreyttum verkefnum. Ekki síst hefur verið lögð áhersla á að Bókmenntaborgin sé hreyfiafl til að styðja við og lyfta fram því sem ekki hefur verið miðlægt í bókmenntaumræðunni. Þar má nefna vinnu með höfundum af erlendum uppruna á Íslandi, stuðning við grasrótarstarf á sviði orðlistar, til að mynda með viðburðahaldi í Gröndalshúsi þar sem skáldum er gefið sviðið, og vinnu með almennings- og skólasöfnum að lestrarhvetjandi verkefnum þar sem lestragleði er í fyrirrúmi. Þá hefur Bókmenntaborgin lagt áherslu á aukinn sýnileika orðlistar í borgarlandinu og komið að fjölda alþjóðlegra verkefna, bæði innan samstarfsnets Bókmenntaborga UNESCO og utan þess. Í öllu sínu starfi leggur Bókmenntaborgin áherslu á breitt samstarf, en meðal fastra samstarfsverkefna má nefna Bókamessu í Bókmenntaborg sem er orðinn einn stærsti bókmenntaviðburður borgarinnar ár hvert, barnamenningarverkefnið SÖGUR og lestrarhvatningu í nafni skáldfáksins Sleipnis. Fjöldi erlendra gestahöfunda hefur dvalið í skáldaíbúð í Gröndalshúsi síðan húsið opnaði 2017 og þar hefur verið unnið að alls konar verkum sem hafa íslenskar tengingar.

Útgáfa afmælisrits

Í tilefni afmælisins gefur bókaútgáfan Benedikt út greinasafnið Erindi – Póetík í Reykjavík í samstarfi við Bókmenntaborgina en í því eru fjórtán greinar eftir jafn marga reykvíska rithöfunda. Þetta eru þau Alexander Dan, Angela Rawlings, Auður Ava Ólafsdóttir, Bergsveinn Birgisson, Bergrún Íris Sævarsdóttir, Elías Knörr, Gerður Kristný, Hallgrímur Helgason, Hildur Knútsdóttir, Margrét Bjarnadóttir, Mazen Maarouf, Steinar Bragi, Steinunn Sigurðardóttir og Yrsa Sigurðardóttir en ritstjóri er Kjartan Már Ómarsson. Þau hugleiða gildi og stöðu ritlistarinnar í íslensku samhengi og velta fyrir sér erindi skáldskaparins um leið og lesendur fá innsýn í þankagang þessara höfunda. Erindin eru eins ólík og höfundarnir eru margir, sum eru ævisöguleg, önnur á mörkum skáldskapar og hugleiðinga og enn önnur fræðileg. Öll eru þau vekjandi og til þess fallin að opna fyrir áframhaldandi umræðu um ritlist, stöðu hennar og höfunda í íslensku menningarlandslagi. Bókin kom út nú í september.

Smelltu hér til að heimsækja vefsíðu Bókmenntaborgarinnar

#borginokkar