• Heim
  • Fréttir
  • Um íslensku jólafólin: Grýlu, Leppalúða og jólasveinana
nóvember 30, 2021

Um íslensku jólafólin: Grýlu, Leppalúða og jólasveinana

Um íslensku jólafólin: Grýlu, Leppalúða og jólasveinana er yfirskrift erindis sem Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur heldur í Landnámssýningunni laugardaginn 4. desember kl. 15. Þar segir hún frá óhugnanlegum sögum og þjóðtrú sem umlykur hina hræðilegu jólafjölskyldu hennar Grýlu, en þau eru svo sannarlega ekki öll þar sem þau eru séð.

Grýla sjálf var (og er kannski ennþá) hryllileg mannæta. Margar sögur segja frá betliferðum hennar í sveitum, þar sem hún leitar sér að börnum til að éta. Þó að lýsingar á útliti hennar séu frekar ófrýnilegar þá virðist hún þó hafa verið vinsæl meðal tröllkarla, áður en hún tók saman við Leppalúða. Ævilok sumra af fyrri körlum hennar urðu ansi nöturleg.

Jólasveinarnir í íslensku þjóðsögunum eru talsvert fleiri en þeir 13 sem að við könnumst flest við í dag. Lengi vel voru ólíkir hópar jólasveina í ólíkum sveitum og sumir þeirra frekar ógeðfelldir. Þá þekktust líka kvenkyns jólasveinar, eins og Flotsokka og Flotnös. Í þjóðsögunum höfðu sveinarnir líka annað útlit og hlutverk en nú, en hefðin hefur tekið miklum breytingum á undanförnum áratugum. Jólasveinarnir hafa mildast og tekið upp betri siði, sem betur fer. Það má svo ekki gleyma hinum dularfulla jólaketti, hvaðan kom hann og af hverju borðaði hann fólk sem fékk ekki nýja flík fyrir jólin? Í erindinu mun Dagrún segja frá þessari furðulegu fjölskyldu. Sögur af ævintýrum þeirra eru oft skemmtilegar, en stundum svolítið hræðilegar og henta því ekki mjög ungum börnum og viðkvæmum sálum. Þá mun hún einnig fjalla um þær breytingar sem hafa orðið hjá þessum jólavættum frá þjóðsögum og gömlum kvæðum og fram til dagsins í dag.

Öll velkomin á meðan húsrúm leyfir. Grímuskylda fyrir alla gesti sem fæddir eru árið 2015 og fyrr.

Þátttaka er ókeypis fyrir börn 17 ára og yngri, menningarkortshafa og öryrkja. Aðrir greiða 1.800 kr. sem gildir jafnframt á sýninguna. Minnum á menningarkortin fyrir eldri borgara.

Erindið er hluti af viðburðaröðinni Fjölskylduhelgar Borgarsögusafns sem er á dagskrá Sjóminjasafnsins og Landnámssýningarinnar veturinn 2021-2022. En þá geta fjölskyldur tekið þátt í alls konar skapandi, notalegum og oft ævintýralegum viðburðum.

#borginokkar